Svör við innsendum spurningum

Hlutfall farþega sem ferðast með lest

Spurning:

Ég er svolítið hugsi eftir að hafa rennt eldsnöggt yfir skýrsluna góðu. Þar er staðhæft að um 50% farþega Gardermoen fari með lest. Samkvæmt Google þá fóru um 23 milljónir farþega um Gardermoen í fyrra og nærri 6,5 milljónir með Flytoget. Þetta gera rétt um 28% flugfarþega með lest. Arlanda var með tæplega 21 milljón flugfarþega. Miðað við 4,3 milljónir lestarfarþega, þá er hlutfallið rétt rösk 20%. Hvort er það ég eða verkefnahópurinn sem er farinn út af sporinu?

Svar

Við áætlun á farþegafjölda er fjöldi erlendra flugfarþega ráðandi þáttur. Þrátt fyrir að opnunarárið 2023 sé gert ráð fyrir rúmlega 1,5 milljónum innlendra farþega sem ekki eru flugfarþegar, skilar sá hópur einungis 13% af áætluðum tekjum. Það verða flugfarþegar, langflestir erlendir, sem standa undir rekstrartekjum.

Við spá um fjölda þeirra skiptir tvennt máli. Áætluð árleg fjölgun, sem gefur framreiknaðan heildarfjölda þeirra á hverju ári og síðan markaðshlutdeild lestarinnar.
Varðandi markaðshlutdeild þá notum við tölur frá Osló sem Avinor, rekstraraðili flugvallarins, vann fyrir okkur. Af þeim flugfarþegum um Gardermoen sem eru á leið til og fá Osló, nýta 59% lest. Hér notum við hlutfallið 55%. Af innlendum flugfarþegum nýta 46% lest í Osló en við treystum okkur ekki hærra en 35% með vísan til sterkrar stöðu einkabílsins sem samgöngumáta hérlendis. Það er hins vegar rétt hjá þér að lestir hafa góða markaðshlutdeild í Osló og töluvert hærri en í t.a.m. Stokkhólmi.
Heildarfarþegafjöldi um flugvöllinn segir hér hins vegar takmarkaða sögu enda inni í þeirri tölu millilendingarfarþegar og farþegar í innanlandsflugi.
Hvað varðar árlegan langtímavöxt ferðamanna til Íslands, þá er hann 9,2% að meðaltali undanfarin 60 ár. Við gerum ekki ráð fyrir svo mikilli fjölgun til langframa út frá takmörkuðum innviðum og fleiri þáttum, en reiknum með 4,2%.
Með vísan til þessa teljum við tekjuforsendur varfærnar eins og þær eiga að vera.