Svör við innsendum spurningum

Endanlegur kostnaður

Spurning:

Má ekki gera ráð fyrir að endanlegur kostnaður verði í kringum 200 milljarðar, kostnaðaráætlanir hafa ekki verið sterkasta hlið Íslendinga undanfarin ár.

Svar

Kostnaðartölur varðandi framkvæmdina eru að flestu leyti fyrirsjáanlegar. Áhættan í framkvæmdinni liggur í jarðgagnagerð. Þar segir í skýrslunni:
„Jarðlagaskipan höfuðborgarsvæðisins er mjög fjölbreytt og má skipta í nokkrar meginmyndanir: Viðeyjarberg, Elliðavogslög, Reykjavíkurgrágrýti, Fossvogslög, móbergsmyndun og nútímahraun. Grágrýtið er talið henta ágætlega til gangagerðar en meiri óvissa ríkir um setlögin, því illa samlímd lög og veikleikabelti gætu verið inn á milli harðari laga23 og það sama gildir í raun um móbergsmyndanir. Út frá áætlaðri þykktardreifingu grágrýtisins liggur það á 0-100 metra dýpi á höfuðborgarsvæðinu. Á þeirri leið sem áætlað er að göngin liggi, benda gögn til þess að grágrýtið nái niður á 20-70 metra dýpi.24 Því myndu göngin að mestum hluta liggja í grágrýtislögum sem henta ágætlega til gangagerðar og að hluta til í jarðlögum sem gætu hentað síður til slíkra framkvæmda. Syðst á svæðinu liggur nútímahraun yfir berggrunninum, undir því geta verið laus setlög. Einnig er að finna móbergsmyndanir að hluta til undir Hafnarfirði og Garðabæ. Stærsti áhættuþátturinn við gerð jarðganga tengist oftast vatnsinnrennsli og lélegu bergi. Til eru ýmis dæmi um tafir og aukinn kostnað vegna þessa, bæði hérlendis og erlendis, til dæmis í Breiðdals- og Botnsheiðargöngum, lestargöngunum til Gardermoen í Noregi og nú síðast innrennsli á heitu vatni í Vaðlaheiðargöngum. Þetta eru hins vegar þekkt vandamál sem til eru lausnir á. Einn af kostunum við þetta verkefni er að göngin liggja grunnt, þar með verður vatnsþrýstingur almennt lægri. Enn fremur er svæðið mjög aðgengilegt til rannsókna, þannig að með góðum undirbúningi ætti að vera hægt að fyrirbyggja slíkt. Gögn úr borholum á höfuðborgarsvæðinu eru strjál og ljóst er að afla þarf ítarlegri upplýsinga um gerð berglaga og sprungukerfa á þeirri leið sem áætlað er að göngin muni liggja auk þess sem þær rannsóknir gætu haft áhrif á hvaða leið verði valin.”
Í samræmi við ofangreint eru ítarlegar jarðfræðilegar rannsóknir forsenda framkvæmda. Hér má einnig benda á að þessi framkvæmd er einkaframkvæmd og munu fjárfestar bera áhættu af henni sem slíkri. Því er mikilvægt að lágmarka þá áhættu áður en farið er af stað.