Fréttir

7. júlí 2014

Lestarmiðinn á 800 til 3.800 krónur- Hagnaður fyrir skatta á ári fjögur

Björn Þ. Guðmundsson, ráðgjafi hjá Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans greindi frá því að innri vextir hluthafa af fjárfestingu miðað við 30 ára rekstrartímabil séu áætlaðir 9,9%.  Reiknað er með að hluthafar byrji að endurheimta fjárfestingu sína strax á fyrsta rekstrarári og endurheimti hana á 22 árum.


Gert er ráð fyrir að áætlaður fjöldi seldra ferða opnunarárið 2023 verði tæpar 4 milljónir, þar af 2,3 milljónir til flugfarþega og 1,7 milljón til annarra farþega af Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu. Miðað er við að 50% flugfarþega í millilandaflugi á leið til og frá landinu nýti lestina.


Fargjald er áætlað á bilinu 800-3.800 kr. Meðalfargjald er áætlað um 2.600 kr. 
 

 Tekjur eru áætlaðar 10,5 ma.kr. á fyrsta rekstrarári 2023. Tekjur af flugfarþegum eru 87% heildartekna.


Árlegur rekstrarkostnaður er áætlaður tæpir 5,8 ma.kr., 4,1 ma.kr. vegna lesta og 1,7 ma.kr. vegna kerfis.


Reiknað er með 20% eiginfjárhlutfalli (20,5 ma.kr.), og lánsfjárþörf upp á 95 ma.kr., 82 ma.kr. vegna stofnkostnaðar og 13 ma.kr. vegna vaxtakostnaðar á framkvæmdatíma.


Rekstrarafkoma verkefnisins (EBITDA) reiknast 4,7 ma.kr. á fyrsta rekstrarári og 9,1 ma.kr. á ári tíu. Verkefnið skilar hagnaði fyrir skatta frá og með ári fjögur og fer að greiða skatta á ári 11.

 
Gert er ráð fyrir að fyrstu tvö árin verði einungis greiddir vextir af lánum en afborganir hefjist að hluta á ári þrjú. Fullar afborganir hefjast svo á ári fjögur miðað við 27 ára afborganaferli.