Fréttir

7. júlí 2014

Fyrstu farþegarnir í janúar 2023?

Runólfur Ágústsson verkefnastjóri hjá Ráðgjöf og verkefnastjórnun var að kynna niðurstöður samstarfsverkefnis níu fyrirtækja og opinberra aðila um hraðlest milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur.


 

  • Bygging og rekstur hraðlestar milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar Reykjavíkur er hagkvæm fjárfesting í einkaframkvæmd sem ekki kallar á bein opinber framlög.
  • Lagt er til að aðilar verkefnisins stofni hlutafélag um framhald málsins. Í kjölfarið sjái félagið um undirbúning og framkvæmd verkefnisins.
  • Hlutverk þess verði, samhliða nákvæmari greiningu á áætluðum kostnaði og óvissugreiningu á mögulegum frávikum, að afla fjármagns til að kosta rannsóknir og skipulagsvinnu auk þess sem leggja þarf drög að fjárfestingasamningi við ríkið.
  • Samhliða þarf ríkið að skilgreina lagalegt umhverfi um lestarsamgöngur á Íslandi.
  • Undirbúningur framkvæmda gæti hafist árið 2015, framkvæmdir verið komnar á fullt árið 2018 og lestin hafið rekstur árið 2023 að því gefnu að fjármögnun undirbúningsfélags ljúki fyrir árslok.

7. júlí 2014

Samfélagslegur ábati af lestinni 40 til 60 milljarðar

Lilja G. Karlsdóttir, samgönguverkfræðingur kynnti rétt í þessu skýrslu Mannvits um samfélagslegan ábata af lestinni sem er 40-60 ma.kr., núvirtur miðað við 5% ávöxtunarkröfu og 30 ára arðsemistíma.


Um er að ræða ábata notenda vegna skilvirkni lestarsamgangna og ábata samfélagsins vegna öryggis og umhverfisáhrifa.


Auk reiknaðs samfélagslegs ábata skapar verkefnið möguleika á samnýtingu við almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu sem gætu minnkað umferðarþunga og skapað enn frekari ábata í umferðarkerfi höfuðborgarsvæðisins.

7. júlí 2014

Lestarmiðinn á 800 til 3.800 krónur- Hagnaður fyrir skatta á ári fjögur

Björn Þ. Guðmundsson, ráðgjafi hjá Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans greindi frá því að innri vextir hluthafa af fjárfestingu miðað við 30 ára rekstrartímabil séu áætlaðir 9,9%.  Reiknað er með að hluthafar byrji að endurheimta fjárfestingu sína strax á fyrsta rekstrarári og endurheimti hana á 22 árum.


Gert er ráð fyrir að áætlaður fjöldi seldra ferða opnunarárið 2023 verði tæpar 4 milljónir, þar af 2,3 milljónir til flugfarþega og 1,7 milljón til annarra farþega af Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu. Miðað er við að 50% flugfarþega í millilandaflugi á leið til og frá landinu nýti lestina.


Fargjald er áætlað á bilinu 800-3.800 kr. Meðalfargjald er áætlað um 2.600 kr. 
 

7. júlí 2014

Kostnaður áætlaður 102 milljarðar - Rekstur gæti hafist 2023

Guðmundur Guðnason, verkfræðingur og sviðstjóri samgöngusviðs verkfræðistofunnar Eflu kynnti rétt í þessu á fundi í BSÍ greiningu á áætluðum kostnaði við að byggja upp hraðlest milli Keflavíkurflugvallar og BSÍ.


Lestarleiðin er um 47 km, þar af 12 km í jarðgöngum frá Straumsvíkursvæði að endastöð við BSÍ.


Gert er ráð fyrir fjórum lestareiningum í rekstri, hver með fimm vögnum auk varaeiningar á viðhaldssvæði.


Undirbúningur framkvæmda getur hafist árið 2015 en framkvæmdir þremur árum síðar sem taka að lágmarki fimm ár. Rekstur gæti þannig mögulega hafist árið 2023.


Miðað er við að lestin gangi frá kl. fimm að morgni til kl. eitt eftir miðnætti og gangi á 15 mínútna fresti á annatíma en á hálftíma fresti þar fyrir utan. Ferðatími verður 15-19 mínútur.

7. júlí 2014

Skýrslur um hraðlest kynntar á BSÍ

Skýrsla Reykjavikurborgar, Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, Isavia, Kadeco, Landsbankans, Reita, Istaks, Eflu og Deloitte um hagkvæmni hraðlestar milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar Reykjavíkur er birt í dag. Samhliða henni var birt skýrsla Mannvits um samfélagsleg áhrif framkvæmdarinnar.
Skýrslunar eru kynntar á kynningarfundi á BSÍ þar sem endastöð lestarinnar verður í Reykjavík.

5. júlí 2014

Helstu upplýsingar

Hámarkshraði: 250 km/klst.
Lengd lestarleiðar: 47 km., þar af 12 km. í göngum.
Tími milli BSÍ og flugvallar: 15-19 mínútúr.
Fjöldi lesta í akstri: Fjórar einingar, sem hver getur flutt 300 farþega. Ein varaeining.
Ferðatíðni: Á fimmtán mínúntna fresti á álagstímum, annars með hálftíma millibili.
Afkastageta mv. 100% sætanýtingu á álagstíma: 2.400 farþegar á klst.

21. janúar 2014

Fjölmennur kynningarfundur á Ásbrú

Á fjölmennum kynningarfundi Kadeco og Heklunnar á Ásbrú í dag kom fram hjá Runólfi Ágústssyni verkefnastjóra að gert væri ráð fyrir fjórum hraðlestum í förum á milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar Reykjavíkur ef að hugmyndir um lestartengingu þar á milli næðu fram að ganga. Stofnkostnaður yrði á bililu 95-105 milljarðar króna. Glærur frá fundinum er að finna hér:

8. nóvember 2013

Frumathugun á hagkvæmni háhraðalestar

Ráðgjöf og verkefnastjórnun skilaði í dag skýrslu um frumathugun á hagkvæmni háhraðalestar milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar Reykjavíkur. Niðurstöður skýrslunnar eru jákvæðar. Sjá skýrsluna hér í pdf formi.